Húsfaðir
22.10.2009 | 11:52
Húsfaðir Daníel er hlutskipti mitt þessa dagana og ekki slæmt hlutskipti það. Ég bý við þann munað að geta verið heima hjá mér í nokkrar vikur núna og hugsa gagngert um börn og heimili. Verkefnin eru ærin og er í raun alltaf af nógu að taka en þetta gæti orðið einsleitt sýnist mér. Mér dettur ekki í hug að segja að þetta sé létt starf en erfitt er það svo sem ekki - sennilega er það andlegi þátturinn sem gæti orðið erfiðastur til lengri tíma litið. Einsleit verkefni sem koma aftur og aftur og eru einhvern veginn aldrei búinn - bara endurtaka sig í sífellu.
Til að búa til fjölbreytni og spara svolítið í leiðinni þá sýnist mér tilvalið að baka og huga vel að matarinnkaupum. Þá er ekki úr slæm hugmynd að gera matseðil til einnar viku í senn og kaupa svo inn fyrir það sem þar er tilgreint og ekki örðu umfram það. Ég ætla að halda utan um húsráð sem að mér er gaukað svo ég væri alveg til í að fá ábendingar ef einhver kynni að luma á - þetta gætu verið allt frá ábendingum um hvernig þrífa á kaffikönnuna (hægt að nota bara salt og vatn og láta standa - svín virkar bara) og yfir í hvernig best er að bera sig að við húsverkin.
Það er nefnilega ekki úr vegi að segja frá því að ég braut skúringar kústinn þegar ég var að skúra núna í gær. Þetta verkfæri er greinilega ekki byggt til að taka á hlutunum heldur bara fyrir einhverjar fínhreyfingar kvenna eða kveinlegra karla.
Fyrsti hlutur sem ég komast að í sambandi við húsföður hlutverkið er að það er gott að hafa kerfi á hvenær hlutir eru gerðir. Þannig að öll herbergi eru þrifin að lámarki einu sinni í viku en oftar ef svo ber við og þörf er á. Skipt á rúmum reglulega og farið yfir allt heimilishald í fyrirfram skilgreindu kerfi og skrá hjá sér hvað er gert og hvenær svo ekkert gleymist. Mér sýnist þetta gefa góða raun og heimilisstörf verða léttari fyrir vikið - auk þess sem heimilið ber þess allt vott. Nú þegar þrif og helsta umgengni er kominn í bókfært ferli er næst að taka á mataræði og innkaupum. Eftir að sá liður er sigraður er komið að innkaupum og fjárhagsliðum öllum og svoleiðis tökum við Húsfuðurs hlutverkið fyrir lið fyrir lið og komum í eins gott ferli og hugsast getur.
Það ber þó auðvitað að taka fram að undantekningar munu koma upp þar sem það þarf að bregða út af fyrirfram skilgreindu ferli en til þess eru skráningarnar - þá bara færum við verkið sem um ræðir á nýjan tímaramma og göngum glaðir inn í hvert verkefni fyrir sig.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Feðraorlof
8.10.2009 | 13:19
Ég er þá byrjaður í feðraorlofi, skall á 1. október og ekkert nema spennandi tímar framundan. Hvað gera feður í orlofi - hver ætli sé táknmyndin sem maður hefur af húsmóðurinni í þessu hlutverki. Ætli það sé ekki eitthvað á þá leið að það þarf að koma börnum á fætur, gefa morgunmat og skóla fyrir þau sem það langt eru kominn á lífsleiðini. Svo er að taka til eftir morgunmat og jafnvel setja í þvottavélina - brjóta saman þvottinn frá í gær og huga að því hvað skildi henta í hádegismat. Taka til helstu leikföng og þurka smá af og hlusta á útvarpið á meðan. Yngra barnið þarf svo auðvitað að sofna og þá skapast allt í einu tími til að fara í grófari þrif eins og klósettið - ekki gott að hafa litla hjálparhellu við það syngjandi í klósettburstann og svona.
Þegar helstu þrifum er lokið er sennilega tími til að hringja nokkur símtöl og kíkja á Facebook og helstu heimasíður. Þá er yngir að vakna aftur og bleijuskipti ásamt hádegismat eru næst á dagskrá. Eftir hefðbundna tiltekt eftir hádegismat er passlegt að leika við litla um stund og dást að því hvað hann er duglegur í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur - verst að sjónvarpið skulu vera orðið svona laskað og borðstofuborðið hoggið eftir allar barsmíðar þess litla. Dagurinn líður sem sagt í tiltekt og umhyggjusemi og ekkert í lífinu utandyra nær að trufla þessa þægilegu veröld okkar feðga. Icesave er þarna alltaf að dúkka upp í útvarpinu jú og ýmis önnur slagorð sem ég hef ekki lagt mig fram við að skilja - hvað þá heldur að sonur minn skilji það þó mér heyrist að hann eigi að borga allt dótið.
Já ég er sem sagt að leggja af stað í feðraorlof og er með mjög einfalda mynd af hlutverki mínu næstu 10 vikur. Halda húsinu hreinu og sem heillegustu - baka, kaupa inn, þvo og allt bara sem til fellur. Svo er bara spurninginn hvort þetta sé nokkuð mál ?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hreyfing og steik
9.7.2009 | 23:22
Því er það sem manni gengur svona illa að standa við áætlanir er varða manns eigin heilsu og hreyfingu. Af hverju er svona gott að fá sér aftur á diskinn þó manni dugi vel þessi fyrsti skammtur - smá ábót segir maður við sjálfið sem reynir að ráðleggja manni vel en kaffærir svo diskinn í sósu og dýrlegri steik. Nú og svo til að toppa þetta allt leyfi ég mér svolítinn ís í eftirmat með öllu tilheyrandi því ég ætla að vera svo duglegur seinna.
Seinna kemur svo eitthvað smávægilegt upp á og góð fyrirheit eru grafinn um sinn. Hef ég ekki sjálfsstjórnina sem þarf til að kötta mig niður eða hvað ? Ja það er nú kannski heila málið að tilgangurinn með öllu þessu aðhaldi og passasemi er mér alveg óljós nánast. Mér var ráðlagt að minnka Kaffi drykkju því þá væri ég miklu hressari og svæfi betur. Fyrstu viðbrögð eru auðvitað að það er nú ekki á samferðafólk mitt bætandi að hafa mig kátari - ég meina hver ykkar hefur mætt mér fíldum eða langt niðri nýlega eða í fjarlægri fortíð ??? Sofa betur já - það er nú ekki kaffið sem truflar svefn - hefur aldrei gert. Meira vinnan sem hefur verið takmarkandi þáttur þar gegnum árin - og núna fjölskyldan í seinni tíð. En það er samt bara gaman - ég hef ekki þurft það mikinn svefn hingað til.
Mér finnst gott að fá mér steik - helst bara steik, grænmetið er ekki beint "gott" þó það sé holt fyrir mig (er mér sagt). Steikin kveikir í bragðlaukunum og bara við að hugsa um góða steik er munnvatn farið að bæra á sér. Kartafla með miklu smjöri og dass af salti - flott sósa með sem dregur fram kjarnann úr steikinni og maturinn er fullkominn - sér í lagi ef maður hittir á gott rauðvín til að hreinsa munninn milli atlotanna sem hver munnbiti fær.
Æ ég hefði ekki átt að fara hugsa um mat svona rétt fyrir svefninn - ætli ég endi ekki núna í mjólk og matarkexi. Nei ég þarf að sýna stillingu og fæ mér bara vatn - ég er að fara hlaupa í fyrramálið. Alla leið í vinnuna svo ég þarf að halda mér passlegum og sofa vel.
Góðar stundir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Næstu mál
15.2.2009 | 14:40
Mín fögru fyrirheit um að reyna koma mér inn í blog pælingar reglulega og svo sem aðrar áætlanir um að skoða nýja hluti er ekki alveg að standa. Tek eftir því að ef það er mikið skorið af svefni og hvíld hvað allt dettur niður í afköstum og bara að njóta nú-sins. Samt búinn að láta vita á öllum þeim stöðum sem þarf að nú dreg ég mig út úr félagsmálum að sinni alla vega. Þetta hafa verið skemmtileg 10 ár sem eru liðinn en ég bara veit að það eru framundan ennþá skemmtilegri ár. Gott að skipta um gír stundum og skoða hvar maður er staddur.
10 ár með Krabbamein er alls ekki réttnefni en það eru samt 10 ár að verða síðan ég greindist og ég hef verið í umræðunni allar götur síðan. Kynnst hrikalega mörgu skemmtilegu og bara fallegu fólki - auðvitað nokkrum slúbbum en það er mikill minnihluti. Hvatning til að takast á við aðra hluti og leyfa öðrum að taka við kyndlinum er að koma víða svo ég hef ekki áhyggjur af félaginu sem ég hef tengst sterkum böndum núna þessi ár. Það er af nægjum verkefnum að taka og búið að skapa gríðarlega flottan jarðveg svo þetta megi allt blessast.
Ég veit að ég á eftir að sakna asans og þessara reddinga sem eru alltaf að koma upp og þarf að bjarga. En að sama skapi er kominn tími til endurmats og stefni ég á að næsti vetur verði notaður í eigin uppbyggingu - kynna mér Joga, læra nudd, huga að matarræðinu og almennt skemmta mér hrikalega vel í jafnvægi við sem flesta þætti í lífinu. Meðan ég hef heilsu til mun ég reyna að bæta mig og finna leiðir til að vera góður leiðbeinandi og fyrirmynd minna nánustu.
Datt það allt í einu í hug þegar ég las yfir þessar línur - verður maður væmnari með aldrinum ?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Liðin vika og eitthvað annað
24.1.2009 | 09:40
Ég er að byrja horfa meira á fréttir aftur, var kominn í algjöra kólnun. Enda vafasamt hvernig miðlarnir meða hvað er fréttnæmt í þessum heimi. T.d. að Ísraelar drepi áfram helling af Palestínumönnum - þetta er því miður meira stöðluð tíðindi frá þeim heimshlutanum. Niðurskurður í heilbrigðismálum er annað sem telst ekki fréttnæmt því síðustu XXX ár hefur þetta verið söngurinn. Frétt hlítur að vera eitthvað sem felur í sér nýjung af stöðu málefnis, eða breytinga á ástandi - þarf sennilega bara að fletta þessu upp í orðabók.
Þorri byrjaður og ég fékk smá smakk af kræsingum í gær, súrir pungar og sviðasulta - bara snilld. Gefur jákvæða strauma að geta hugsað til þess að framundan eru veislur sem mér hefur hlakkað til lengi. Ég hugsa mikið um mat, viðurkenni það bara hiklaust. Eftir því sem ég eldist hugsa ég meira um mat - en borða minna en ég gerði hér í denn.l
Annars kom það fram fyrir skemmstu að Intranet Kaupþings fékk ein virtustu verðlaun sem veitt eru í Vefmálum fyrir nokkrum dögum (http://www.nngroup.com/reports/intranet/design/ og http://www.nngroup.com/reports/intranet/design/awards.html) það var tekin mynd af hópnum og já ég var þar á meðal, skrítið samt að hugsa til þess að nokkrir nánir vinnufélagar úr þessum hópi eru ekki lengur að vinna með manni. Í raun hefur landslagið breyst heilan helling á liðnum mánuðum eins og gefur að skilja.
Kvef og veikindi hafa verið að hrjá okkur og já það er fréttnæmt því yfirleitt slær ekki feiltakt hérna á heimilinu. En þetta gengur yfir á smá tíma og kanski maður reyni bara að sofa smá - piltarnir mínir eiga eftir að samþykkja það að vísu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lítið sem breytist ennþá
15.1.2009 | 22:33
Ég var svo sem ekki með neinar yfirlýsingar um hvernig ég ætlaði að sigra heiminn og verða helköttaður á þessu ári. Samt hélt ég að ég myndi breyta einhverju svona í tilefni áramóta, en kanski samt ekki fyrr en eftir afmælið mitt - maður verður jú að leyfa sér að borða góðan mat og gleðjast þá. Nú og svo eftir afmæli þá lenti ég fyrir góðum mat í vinnu, heima og í heimsóknum svo ég hef nánast etið yfir mig allt þetta ár. Nema þessi dagur sem ég var með hitann, þá rétt gat ég borðað passlega mikið.
Alla vega æfing aftur á morgun í Bootcamp og sjáum svo til hvort helgin verði ekki nýtt í eitthvað gagnlegt. Kanski þarf bara ekkert að stressa sig á breytingum - það er svo sem ekkert í ólagi en gaman ef maður nær að bæta eitthvað - það væri þá helst að byrja svara tölvupóstum betur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bjartur er hann
12.1.2009 | 22:34
Ég slysaðist til að horfa á kastljós áðan og smá úr fréttum. Rifjaðist fljótt upp fyrir mér af hverju ég er eiginlega búinn að sleppa þessu undanfarið. Ísraelar með fjöldamorð á nágrönnum sínum og annað áfall nálgast líkt og gerðist hérlendis í Sept er verið að spá. Alheims kreppa og svona næs hlutir í gangi heyrist mér. Gott ef ég sleppi ekki bara morgundeginum úr í fréttum og leiki bara við synina.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Spurning um viðhorf
11.1.2009 | 11:22
Þetta er í raun bara spurning um viðhorf, hef ég það viðhorf að menn séu almennt að gera sitt besta og leyfi þeim að njóta vafans eða fer ég af stað strax með því hugarfari að verið sé að fara auðveldu leiðina ? Sennilega hef ég oft ætt af stað með neikvæðu hugarfari og verð gramur og reiður yfir því að fólk í kringum mig er ekki að ná hlutum og afgreiða. Ég get í raun ekki ætlast til þess þar sem ég sit allan daginn með verkefni mín og skoða fram og til baka en þeir sem ég snerti á hér kringum mig eru með sín verkefni og það þarf alltaf að byrja á að kynna umræðuna og ná sameiginlegum skilningi.
Það hefur svo komið fyrir að þegar sameiginlegur skilningur er kominn að menn segja bara þín verkefni eru prump og önnur hafa meiri forgang. Ég hef fengið það viðhorf ótal sinnum, skrítið samt að eftir banka hrunið er viðhorf manna kanski rólegra og við erum farin að eiga betri samskipti kanski hrædd um að missa eitthvað ef við gerum ekki öll okkar besta. Kanski bara skiljum við í dag að stöðug niðurnýsla á ákveðnum verkþáttum er skemmdarverk þegar á heildina er litið. Þú byggir ekki neina afurð svo hún standi sterk nema með heildrænu yfirliti og samræmingu verkþátta.
Vefmálin í fyrirtækjum eiga það á hættu að lenda undir þar sem stjórnendur eru oft á tíðum ekki með tilfinningu fyrir öllum þáttum ferlis. Hafa ekki tíma til að kynna sér og greina alla hluti og velja því þá þætti sem talið er að standi sterkast fyrir þau persónulega. Hvernig nær einstaklingur frama ef hann passar ekki að leika mest og þjóna best við AÐAL. Höldum minni spámönnum sæmilega ánægðum eða skiptum okkur ekki af þeim þar sem þeir hafa ekki rödd sem heyrist hátt.
Það má samt vara sig á svona viðhorfi AÐAL getur horfið sviplega og upp rísa nýjir AÐAL. Við skulum því venja okkur á að sinna öllum okkar verkefnum vel og með sóma. Ef þú treður á litla manninum í dag getur það komið í bakið á þér síðar þegar hann er orðinn AÐAL getur líka tekið sénsinn á að þú verðir sjálf/ur alltaf meiri AÐAL en hinir og bara troðið og göslast áfram. Það eru sigurvegararnir sem skrifa söguna og móta jarðveginn. Ég ætla að venja mig á jákvætt viðhorf ef þú treður á mér næ ég þér bara síðar og jafnvel þá með bros á vör verð ég jákvæður.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tilgangurinn
6.1.2009 | 18:15
Ég fór yfir nokkrar blog færslur í gær hérna á mbl blog-i og jú athugasemdir einstaklinga eru nokkuð athyglisverðar. Eiginlega bara gaman að renna yfir svona mismunandi skoðanir og sjá trúarhita umræðna. Pæling hvaða tilgangi þetta þjónar þegar fólk sveigir ekkert af skoðunum sínum þó ágætis röksemdir komi við ábendingum. Verður rétt eins og hver og einn sé bara að telja hina inn á sína skoðun án þess að geta nokkuð þokast af sinni einu réttu.
Það hlítur að vera ágætis hugleiðing í sambandi við tilgang þess að blog-a að maður hafi undirmarkmið að læra og auka þekkingu sína á mönnum og málefnum. Við höfum mörg hver alla vega mjög fastmótaðar skoðanir á málefnum líðandi stundar sem mótast af mörgum þáttum. Hvað get ég lagt til umræðunnar ? Hverju get ég stefnt á að miðla ? Hvernig get ég bætt mig ?
Næstu mánuðir leiða það í ljós - spennandi tímar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Árið áður en ég verð fertugur
6.1.2009 | 00:03
Það er að bresta á, þessi óumflýjanlegu og athyglisverðu tímamót - ég verð fertugur eftir rétt slétt ár eða svo. Ég viðurkenni að ég hef talsvert hugsað um þetta og þó ég sé nokkuð slakur yfir þessu svona almennt séð þá er því ekki að neita að maður festist í pælingum tengdum aldri. Aldur er annars mikið til hugarástand auðvitað svo maður ætti að vera slakur á þessu. En eitthvað er ég að stressa mig greinilega - ég er þó búinn að stofna blogg um stöðu mála og alles.
Annars er margt spennandi framundan og virkilega athyglisverðir tímar. Hvað mun næsta ár helst bera í skauti sér ? Kanski næ ég að renna yfir líf mitt og meta stöðuna almennt, ætti ég að gera hlutina eitthvað á annan veg eða er ég bara í fínum málum ? Get ég nýtt blogg til að kynnast sjálfum mér betur ? Eða verður þetta enn einn tímaþjófurinn sem lítið skilur eftir sig ?
Jæja þetta kemur allt í ljós og svo sem ekki mikið um það að segja núna. Reyni að gera eitthvað gott úr þessu öllu og skrá niður hugleiðingar og taka þátt í almennum þjóðfélags umræðum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)