Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Liðin vika og eitthvað annað

Ég er að byrja horfa meira á fréttir aftur, var kominn í algjöra kólnun.  Enda vafasamt hvernig miðlarnir meða hvað er fréttnæmt í þessum heimi.  T.d. að Ísraelar drepi áfram helling af Palestínumönnum - þetta er því miður meira stöðluð tíðindi frá þeim heimshlutanum.  Niðurskurður í heilbrigðismálum er annað sem telst ekki fréttnæmt því síðustu XXX ár hefur þetta verið söngurinn.  Frétt hlítur að vera eitthvað sem felur í sér nýjung af stöðu málefnis, eða breytinga á ástandi - þarf sennilega bara að fletta þessu upp í orðabók.

Þorri byrjaður og ég fékk smá smakk af kræsingum í gær, súrir pungar og sviðasulta - bara snilld.  Gefur jákvæða strauma að geta hugsað til þess að framundan eru veislur sem mér hefur hlakkað til lengi.  Ég hugsa mikið um mat, viðurkenni það bara hiklaust.  Eftir því sem ég eldist hugsa ég meira um mat - en borða minna en ég gerði hér í denn.l

Annars kom það fram fyrir skemmstu að Intranet Kaupþings fékk ein virtustu verðlaun sem veitt eru í Vefmálum fyrir nokkrum dögum (http://www.nngroup.com/reports/intranet/design/ og http://www.nngroup.com/reports/intranet/design/awards.html) það var tekin mynd af hópnum og já ég var þar á meðal, skrítið samt að hugsa til þess að nokkrir nánir vinnufélagar úr þessum hópi eru ekki lengur að vinna með manni.  Í raun hefur landslagið breyst heilan helling á liðnum mánuðum eins og gefur að skilja.

 Kvef og veikindi hafa verið að hrjá okkur og já það er fréttnæmt því yfirleitt slær ekki feiltakt hérna á heimilinu.  En þetta gengur yfir á smá tíma og kanski maður reyni bara að sofa smá - piltarnir mínir eiga eftir að samþykkja það að vísu.


Lítið sem breytist ennþá

Ég var svo sem ekki með  neinar yfirlýsingar um hvernig ég ætlaði að sigra heiminn og verða helköttaður á þessu ári.  Samt hélt ég að ég myndi breyta einhverju svona í tilefni áramóta, en kanski samt ekki fyrr en eftir afmælið mitt - maður verður jú að leyfa sér að borða góðan mat og gleðjast þá.  Nú og svo eftir afmæli þá lenti ég fyrir góðum mat í vinnu, heima og í heimsóknum svo ég hef nánast etið yfir mig allt þetta ár.  Nema þessi dagur sem ég var með hitann, þá rétt gat ég borðað passlega mikið.

 Alla vega æfing aftur á morgun í Bootcamp og sjáum svo til hvort helgin verði ekki nýtt í eitthvað gagnlegt.  Kanski þarf bara ekkert að stressa sig á breytingum - það er svo sem ekkert í ólagi en gaman ef maður nær að bæta eitthvað - það væri þá helst að byrja svara tölvupóstum betur. 


Bjartur er hann

Ég slysaðist til að horfa á kastljós áðan og smá úr fréttum.  Rifjaðist fljótt upp fyrir mér af hverju ég er eiginlega búinn að sleppa þessu undanfarið.  Ísraelar með fjöldamorð á nágrönnum sínum og annað áfall nálgast líkt og gerðist hérlendis í Sept er verið að spá.  Alheims kreppa og svona næs hlutir í gangi heyrist mér.  Gott ef ég sleppi ekki bara morgundeginum úr í fréttum og leiki bara við synina.

 


Spurning um viðhorf

Þetta er í raun bara spurning um viðhorf, hef ég það viðhorf að menn séu almennt að gera sitt besta og leyfi þeim að njóta vafans eða fer ég af stað strax með því hugarfari að verið sé að fara auðveldu leiðina ?  Sennilega hef ég oft ætt af stað með neikvæðu hugarfari og verð gramur og reiður yfir því að fólk í kringum mig er ekki að ná hlutum og afgreiða.  Ég get í raun ekki ætlast til þess þar sem ég sit allan daginn með verkefni mín og skoða fram og til baka en þeir sem ég snerti á hér kringum mig eru með sín verkefni og það þarf alltaf að byrja á að kynna umræðuna og ná sameiginlegum skilningi.

Það hefur svo komið fyrir að þegar sameiginlegur skilningur er kominn að menn segja bara „þín verkefni eru prump og önnur hafa meiri forgang“.  Ég hef fengið það viðhorf ótal sinnum, skrítið samt að eftir banka hrunið er viðhorf manna kanski rólegra og við erum farin að eiga betri samskipti – kanski hrædd um að missa eitthvað ef við gerum ekki öll okkar besta.  Kanski bara skiljum við í dag að stöðug niðurnýsla á ákveðnum verkþáttum er skemmdarverk þegar á heildina er litið.  Þú byggir ekki neina afurð svo hún standi sterk nema með heildrænu yfirliti og samræmingu verkþátta. 

Vefmálin í fyrirtækjum eiga það á hættu að lenda undir þar sem stjórnendur eru oft á tíðum ekki með tilfinningu fyrir öllum þáttum ferlis.  Hafa ekki tíma til að kynna sér og greina alla hluti og velja því þá þætti sem talið er að standi sterkast fyrir þau persónulega.  Hvernig nær einstaklingur frama ef hann passar ekki að leika mest og þjóna best við AÐAL.  Höldum minni spámönnum sæmilega ánægðum eða skiptum okkur ekki af þeim þar sem þeir hafa ekki rödd sem heyrist hátt. 

Það má samt vara sig á svona viðhorfi – AÐAL getur horfið sviplega og upp rísa nýjir AÐAL.  Við skulum því venja okkur á að sinna öllum okkar verkefnum vel og með sóma.  Ef þú treður á litla manninum í dag getur það komið í bakið á þér síðar þegar hann er orðinn AÐAL – getur líka tekið sénsinn á að þú verðir sjálf/ur alltaf meiri AÐAL en hinir og bara troðið og göslast áfram.  Það eru sigurvegararnir sem skrifa söguna og móta jarðveginn.   Ég ætla að venja mig á jákvætt viðhorf – ef þú treður á mér næ ég þér bara síðar og jafnvel þá með bros á vör verð ég jákvæður.


Tilgangurinn

Ég fór yfir nokkrar blog færslur í gær hérna á mbl blog-i og jú athugasemdir einstaklinga eru nokkuð athyglisverðar.  Eiginlega bara gaman að renna yfir svona mismunandi skoðanir og sjá trúarhita umræðna.  Pæling hvaða tilgangi þetta þjónar þegar fólk sveigir ekkert af skoðunum sínum þó ágætis röksemdir komi við ábendingum.  Verður rétt eins og hver og einn sé bara að telja hina inn á sína skoðun án þess að geta nokkuð þokast af sinni einu réttu. 

Það hlítur að vera ágætis hugleiðing í sambandi við tilgang þess að blog-a að maður hafi undirmarkmið að læra og auka þekkingu sína á mönnum og málefnum.  Við höfum mörg hver alla vega mjög fastmótaðar skoðanir á málefnum líðandi stundar sem mótast af mörgum þáttum.  Hvað get ég lagt til umræðunnar ?  Hverju get ég stefnt á að miðla ?  Hvernig get ég bætt mig ?

Næstu mánuðir leiða það í ljós - spennandi tímar.


Árið áður en ég verð fertugur

Það er að  bresta á, þessi óumflýjanlegu og athyglisverðu tímamót - ég verð fertugur eftir rétt slétt ár eða svo.  Ég viðurkenni að ég hef talsvert hugsað um þetta og þó ég sé nokkuð slakur yfir  þessu svona almennt séð þá er því ekki að neita að maður festist í pælingum tengdum aldri.  Aldur er annars mikið til hugarástand auðvitað svo maður ætti að vera slakur á þessu.  En eitthvað er ég að stressa mig greinilega - ég er þó búinn að stofna blogg um stöðu mála og alles.

Annars er margt spennandi framundan og virkilega athyglisverðir tímar.  Hvað mun næsta ár helst bera í skauti sér ?  Kanski næ ég að renna yfir líf mitt og meta stöðuna almennt, ætti ég að gera hlutina eitthvað á annan veg eða er ég bara í fínum málum ?  Get ég nýtt blogg til að kynnast sjálfum mér betur ? Eða verður þetta enn einn tímaþjófurinn sem lítið skilur eftir sig ?

 Jæja þetta kemur allt í ljós og svo sem ekki mikið um það að segja núna.  Reyni að gera eitthvað gott úr þessu öllu og skrá niður hugleiðingar og taka þátt í almennum þjóðfélags umræðum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband