Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009
Hreyfing og steik
9.7.2009 | 23:22
Því er það sem manni gengur svona illa að standa við áætlanir er varða manns eigin heilsu og hreyfingu. Af hverju er svona gott að fá sér aftur á diskinn þó manni dugi vel þessi fyrsti skammtur - smá ábót segir maður við sjálfið sem reynir að ráðleggja manni vel en kaffærir svo diskinn í sósu og dýrlegri steik. Nú og svo til að toppa þetta allt leyfi ég mér svolítinn ís í eftirmat með öllu tilheyrandi því ég ætla að vera svo duglegur seinna.
Seinna kemur svo eitthvað smávægilegt upp á og góð fyrirheit eru grafinn um sinn. Hef ég ekki sjálfsstjórnina sem þarf til að kötta mig niður eða hvað ? Ja það er nú kannski heila málið að tilgangurinn með öllu þessu aðhaldi og passasemi er mér alveg óljós nánast. Mér var ráðlagt að minnka Kaffi drykkju því þá væri ég miklu hressari og svæfi betur. Fyrstu viðbrögð eru auðvitað að það er nú ekki á samferðafólk mitt bætandi að hafa mig kátari - ég meina hver ykkar hefur mætt mér fíldum eða langt niðri nýlega eða í fjarlægri fortíð ??? Sofa betur já - það er nú ekki kaffið sem truflar svefn - hefur aldrei gert. Meira vinnan sem hefur verið takmarkandi þáttur þar gegnum árin - og núna fjölskyldan í seinni tíð. En það er samt bara gaman - ég hef ekki þurft það mikinn svefn hingað til.
Mér finnst gott að fá mér steik - helst bara steik, grænmetið er ekki beint "gott" þó það sé holt fyrir mig (er mér sagt). Steikin kveikir í bragðlaukunum og bara við að hugsa um góða steik er munnvatn farið að bæra á sér. Kartafla með miklu smjöri og dass af salti - flott sósa með sem dregur fram kjarnann úr steikinni og maturinn er fullkominn - sér í lagi ef maður hittir á gott rauðvín til að hreinsa munninn milli atlotanna sem hver munnbiti fær.
Æ ég hefði ekki átt að fara hugsa um mat svona rétt fyrir svefninn - ætli ég endi ekki núna í mjólk og matarkexi. Nei ég þarf að sýna stillingu og fæ mér bara vatn - ég er að fara hlaupa í fyrramálið. Alla leið í vinnuna svo ég þarf að halda mér passlegum og sofa vel.
Góðar stundir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)